Sport

Rice: Þarf að vera sterkur fyrir eiginkonuna mína

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ray Rice þykir góður hlaupari.
Ray Rice þykir góður hlaupari. Vísir/Getty
Ray Rice, ruðningskappinn sem leystur var undan samningi hjá Baltimore Ravens á dögunum eftir að myndband af honum er hann rotaði konuna sína lak á netið tjáði sig loksins um málið í gær.

Rice var upphaflega dæmdur í tveggja leikja bann sem hefði verið lokið eftir leik Baltimore Ravens á morgun. Eftir að myndbandið rataði á netið var hann hinsvegar leystur undan samningi hjá Ravens ásamt því að NFL-deildin setti hann í ótímabundið bann.

„Ég þarf að vera sterkur fyrir konuna mína, hún er búin að vera svo sterk allan þennan tíma. Við erum á góðum stað og munum halda áfram að styðja við hvort annað og við munum leysa úr þessu saman sem fjölskylda,“ sagði Rice en þau giftust fyrr í sumar.

Óvíst er hvert framhaldið verður hjá Rice en hann átti þrjú ár eftir af samningi sínum hjá Baltimore Ravens þegar honum var rift. Janay Rice, eiginkona Ray, virðist hinsvegar styðja hann en hún tjáði sig á Instagram aðgangi sínum í gær:

„Leið í morgun eins og ég hefði upplifað hrikalega martröð. Það gerir sér enginn grein fyrir sársaukanum sem við erum að upplifa með þessari umfjöllun um augnablik sem við munum sjá eftir að eilífu. Að taka eitthvað af eiginmanni mínum sem hann hefur unnið fyrir allt frá því að hann var lítill er rangt.“

Félagið hefur boðið öllum aðdáendum liðsins sem eiga treyju merkta Ray Rice að skipta henni í verslun liðsins.

NFL

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×