Vetur konungur farinn að láta á sér kræla, kólnað hefur á landinu og víða hefur snjóað. Til dæmis er allt hvítt á Vestfjörðum og þar er færð slæm. Að sögn lögreglu er um þriggja til fjögurra sentímetra jafnfallinn snjór niðri við sjó og hífandi rok. Ekkert frost er í þessu ennþá. En, þegar fólk er enn á sumardekkjum, sem er raunin, þá getur það verið verulegt vesen og mælir lögregla með því að fólk sé ekki mikið á ferðinni á illa búnum bílum. Slíkt sé ávísun á vandræði.
Veðurstofan varar við stormi á norðvestanverðu landinu. Við suðurströndina er 968 mb lægð sem hreyfist hægt NA, en skammt norður af landinu er önnur álíka lægð sem hreyfist lítið. Veðurhorfur á næstunni eru þær að hann gengur í norðvestan og vestan 13-23 m/s með slyddu eða snjókomu norðvestantil á landinu, en norðan- og norðaustantil þegar líður á daginn. Hægari vestlæg átt sunnantil á landinu og skúrir eða slydduél. Fer að lægja vestantil síðdegis, en austantil í kvöld. Hiti 0 til 8 stig, mildast við SA-ströndina.
