„Það var auðvitað seinkun á öllum leiðum en þó aðallega vegna annarrar umferðar, vanbúinna bíla og vegna þess að Kópavogur byrjaði ekki að salta og moka fyrr en um klukkan 8 í morgun,“ segir Júlía Þorvaldsdóttir, sviðsstjóri farþegaþjónustu Strætó bs. Margir Kópavogsbúar hafi því ekkert komist til vinnu með strætó.
Júlía segir að önnur sveitarfélög hafi staðið sig vel í saltvörnum og að Strætó sé búinn að vera í sambandi við Kópavogsbæ. Þar á bæ séu menn búnir að sannfæra fyrirtækið um að söltun og mokstur muni ekki klikka aftur.
„Farþegar höfðu almennt skilning á þessu en í Kópavogi hafði fólk auðvitað ekki skilning á hvað væri í gangi. Kópavogur er hins vegar að klára að moka núna og tímaáætlunin fer að komast í lag. Það tekur sérstaklega langan tíma fyrir áætlunina að komast í rétt horf þar sem tafirnar voru meiri en vanalega vegna ástandsins í Kópavogi.“
Þá hafi akstur Strætó úti á landi tafist töluvert og þrjár ferðir hafi verið felldar niður í morgun. Annars hafi umferðin gengið vel almennt þar sem Strætó hafi verið viðbúinn færðinni og flotinn kominn á vetrardekk.
„Við setjum alltaf öryggi farþega og starfsfólk umfram tímaáætlun, það er algjör regla hjá okkur,“ segir Júlía. Aðspurð segir hún engin slys eða árekstrar hafa orðið hjá Strætó í morgun vegna færðarinnar.
