Þrjár björgunarsveitir hafa verið kallaðar út á Austfjörðum í dag. Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að svo virðist sem að veðrið sem nú gangi yfir landið sé einna vers þar.
Á Egilstöðum var björgunarsveitin Hérað kölluð út til að ferja um 30 manns til Egilsstaða eftir að rúta með starfsfólki Alcoa fór útaf í Fagradal. Engin meiðsli urðu á fólki en mikil hálka er á veginum um dalinn.
Björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði eystra sótti lok af heitum potti sem fokið hafði út á fjörð. Vont var í sjóinn og var snúið við áður en lokið fannst.
Hluti af gafli húss á Seyðisfirði fauk og var björgunarsveitin Ísólfur kölluð út. Meðlimir hennar festu það sem eftir var af gaflinum og lokuðu gati sem hafði myndast.
