Skoðun

Tækifæri VG

Haraldur Ólafsson skrifar

Vorið 2011 lögðu 15 þingmenn VG fram á Alþingi ályktun um úrsögn Íslands úr Atlantshafsbandalaginu. Ályktunin var studd margvíslegum rökum þar sem sagði að Ísland gumi af því að vera herlaust og friðsamt land og að það sé brýnt að Ísland sýni í verki að það sé sjálfu sér samkvæmt, herlaust og andvígt hernaðarofbeldi.



Undanfarin ár hefur íslenska ríkið verið í ferli sem miðar að því að Íslendingar verði þegnar í Evrópusambandinu svo vitnað sé orðrétt í sáttmála sambandsins um stöðu íbúa þess. Það er samband sem byggt er á sáttmála um vígbúnað og hervæðingu. Þar starfar þing sem reyndar er valdaminna en nafnið gefur til kynna, en það hefur ályktað með miklum meirihluta um stofnun Evrópuhers. Þegnskapur í slíku sambandi gengur lengra í þá átt að flækja Íslendinga í hernaðarvél stórvelda en aðild íslenska ríkisins að Atlantshafsbandalaginu  hefur nokkurn tímann gert.



Ekki náðist að greiða atkvæði um ályktunina um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu svo segja má að þingmennirnir hafi ekki fengið fullt tækifæri til að sýna að hugur fylgdi máli. En nú er lag. Þingmenn VG fá nú kærkomið tækifæri til að sýna kjósendum sínum og þjóðinni allri hvort þeir vilji stöðva ferli sem miðar að því að gera Íslendinga að þegnum í verðandi herveldi gömlu evrópsku nýlenduveldanna. Varla láta þeir það sér úr greipum ganga.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×