Lífið

Dansari dulbúinn sem bókasafnskona

„Allir góðir dansar byrja niðri“
„Allir góðir dansar byrja niðri“ Fréttablaðið/Valli
Sara Stef Hildardóttir, bókasafnsfræðingur við bókasafn Listaháskóla Íslands, er ekki öll þar hún er séð, en hún slær upp hádegissamkomu í dag í samstarfi við Lunch Beat Reykjavík.

„Við ætlum að halda tryllt danspartí á bókasafninu. Við dönsum fyrir íslenskri hönnun á HönnunarMars,“ en bókasafn hönnunar- og arkitektúrdeildar skólans er á sjöttu hæð í húsnæði deildarinnar í Þverholti 11.

„Þaðan sést til allra átta og ólíklegt að dansararnir í dag hafi stigið taktinn við annað eins útsýni,“ bætir Sara við en viðburðurinn hefst stundvíslega klukkan tólf á hádegi og lýkur klukkan eitt.

„Helstu dansarar landsins hafa þegar staðfest komu sína, til dæmis Erna Ómarsdóttir, Ásgerður Guðrún Gunnarsdóttir, Ásrún Magnúsdóttir og Védís Kjartansdóttir hjá Lunch Beat og fleiri unglömb í dansbransanum sem ég kann ekki að nefna.“

Lunch Beat Reykjavík er íslenskur angi hinnar alþjóðlegu danshreyfingar og hefur slegið upp hádegisdansi víðs vegar um Reykjavík á undanförnum misserum. Nú síðast í Hörpu þar sem dansað var fyrir alþjóðlega verkefninu Milljarður rís og UN Women.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.