Menning

Speglar samtímann og söguna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Á veggjunum snýst ekkert um mig heldur það sem ég hef tekið myndir af,“ segir Rax.
"Á veggjunum snýst ekkert um mig heldur það sem ég hef tekið myndir af,“ segir Rax. Fréttablaðið/GVA
„Sýningin er svona yfirlit yfir árin. Úr ævintýraferðum og úr sögunni,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari um sýninguna Spegill lífsins, sem opnuð verður í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á laugardaginn.

Sjálfur kveðst hann ekki geta verið við opnunina því þá verði hann kominn til Grænlands.

Á veggjunum eru stórar myndir úr bókunum hans, af heimi og lífsbaráttu veiðimanna á Grænlandi,  bænda og sjómanna á Íslandi og í Færeyjum og frá Síberíu. Svo eru fréttamyndir á einum vegg.

„Fréttamyndirnar eru frá þeim tíma sem við vorum alltaf á ferðinni,“ segir hann. „Frá Eystrasaltsríkjunum á tímamótum, skipsströndum og eldgosum. Brot af þessu. Nokkuð flott sýnishorn bæði af nýju og gömlu.“

Talandi um gamalt. Ragnar segir þrjá glerkassa á sýningunni með litlum myndum frá því hann var að byrja.

„Sumar eru frá Kvískerjum í Öræfum þar sem ég var á sumrin sem strákur. Þar byrjaði þetta allt. Ég smíðaði mér kassa til að vera í við að taka myndir af skúmum á hreiðrum. Þá uppgötvaði ég að fuglar kunna bara að telja upp að einum. Ef ég fór einn í kassann þá settust fuglarnir ekki á hreiðrin en ef Hálfdán eða Helgi á Kvískerjum voru með mér og gengu til baka þá settust fuglarnir og ég gat myndað.

Þetta var paradís og þarna hófst minn ferill. Svo kenndi pabbi mér að framkalla þegar ég kom heim.“

Ragnar tekur fram að á veggjunum sé verið að spegla samtímann og söguna. „Þar snýst ekkert um mig heldur það sem ég hef tekið myndir af,“ segir hann ákveðinn.

Þess má geta að um þessar mundir kemur út ný ljósmyndabók Ragnars í hinni þekktu frönsku ljósmyndabókaritröð Photo Poche. Hérlendis verður bókin gefin út á ensku af útgefanda Ragnars, Crymogeu.

Sýningin í Ljósmyndasafni Reykjavíkur er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2014 og stendur til 7. september.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.