Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hyggst fara til Mið-Austurlanda til að miðla málum í deilunni á Gasa.
Líkur á vopnahléi virðast þó ekki miklar. Ísraelar segjast ekki ætla að láta staðar numið fyrr en búið er að eyðileggja gangakerfi Hamas-samtakanna undir landamæri Ísraels og Gasa auk þess að stöðva flugskeytaskot Hamas til Ísrael. Benjamin Netanyahu segir að Ísraelsher gæti farið mun lengra inn á Gasa.
Að minnsta kosti 24 Palestínumenn og einn Ísraeli hafa fallið frá því innrás Ísraela hófst á fimmtudag. Í heild hafa um 280 Palestínumenn og tveir Ísraelar týnt lífi síðan hernaðaraðgerðir hófust á Gasa fyrir ellefu dögum. Meirihluti hinna látnu er almennir borgarar.
Fjöldi Palestínumanna á vergangi hefur tvöfaldast síðan innrásin hófst á fimmtudag. Um fjörutíu þúsund Palestínumenn eru nú á vergangi á Gasa.
Ísraelskir ráðamenn búast við að innrásin geti staðið yfir í talsverðan tíma. „Við þurfum að klára það verk sem við hófum. Við þurfum að útrýma öllum hryðjuverkamönnunum. Það verður engin friðhelgi veitt,“ sagði Uri Ariel, ráðherra Ísraelska heimastjórnarflokksins.
Barack Obama Bandaríkjaforseti sagðist styðja rétt Ísraela til að verja sig: „Engin þjóð ætti að þurfa að sætta sig við að flugskeytum sé skotið inn á hennar land.“
Jeffrey Feltman, yfirmaður pólitískrar deildar Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að nauðsynlegt væri að alþjóðasamfélagið hæfi vinnu að tveggja ríkja lausn, þar sem bæði Palestína og Ísrael yrðu sjálfstæð ríki.
Erlent