Erlent

Ísraelsher kenndi Hamas-samtökunum um

Freyr Bjarnason skrifar
Ættingjar Hazem Eshbair hópuðust í kringum hann en hann missti tvö barna sinna í sprengjuárás á almenningsgarð í gær.
Ættingjar Hazem Eshbair hópuðust í kringum hann en hann missti tvö barna sinna í sprengjuárás á almenningsgarð í gær. Fréttablaðið/AP
Að minnsta kosti tíu Palestínumenn fórust, þar á meðal börn, þegar sprengjuárás var gerð á almenningsgarð á Gasasvæðinu í gær. Samkvæmt palestínskum heilbrigðisstarfsmanni særðust 46 í árásinni.

Árásin átti sér stað nokkrum mínútum eftir að sprengja sprakk á Sifa-sjúkrahúsinu þar sem þó nokkrir særðust. Ísraelski herinn sagðist ekki bera ábyrgð á sprengingunum og hélt því fram að eldflaugar palestínskra vígamanna hefðu valdið skaðanum eftir að hafa ekki drifið nógu langt. Palestínumenn voru ekki á sama máli og sögðu Ísraela bera fulla ábyrgð.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði að ofbeldinu á Gasasvæðinu yrði að linna í nafni mannúðar.Nordicphotos/AFP
Fyrr um daginn sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, að stöðva þyrfti ofbeldið á Gasasvæðinu. „Í nafni mannúðar þá verður ofbeldinu að linna,“ sagði hann. 

Hann sakaði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, og Khaled Mashaal, leiðtoga Hamas-samtakanna, um að vera óábyrgir og siðferðislega á rangri braut fyrir að láta sitt eigið fólk deyja. Hann hvatti þá til að sýna „pólitískan vilja“ og „samúðarfulla leiðtogahæfileika“ til að binda endi á þjáningar borgaranna á svæðinu. „Ástandið á Gasa er mjög alvarlegt,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×