Innlent

Eitt hundrað nýir meðlimir á tíu dögum

Freyr Bjarnason skrifar
Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Íslands-Palestínu, er mjög ánægður með fjölgunina í félaginu.
Fréttablaðið/Vilhelm
Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Íslands-Palestínu, er mjög ánægður með fjölgunina í félaginu. Fréttablaðið/Vilhelm
Undanfarna tíu daga hafa um eitt hundrað manns skráð sig sem meðlimi í félaginu Ísland-Palestína, sem er tæplega 10 prósenta fjölgun félagsmanna.

Aðspurður segist Sveinn Rúnar Hauksson, formaður félagsins, vera ánægður með fjölgunina en ekki tilefnið fyrir henni. „Það er svolítið óhugnanlegt að hugsa til þess að við þurfum ekki að vera með neitt kynningarstarf til að fjölga í félaginu okkar. Það er Ísraelsstjórn sem sér um það,“ segir hann.

Rúmlega ein milljón króna hefur safnast í söfnunarfötur á tveimur fjölmennum útifundum félagsins að undanförnu. Ákveðið hefur verið að láta upphæðina renna óskipta til AISHA, félags til verndar konum og börnum á Gasasvæðinu. „Í rauninni höfum við verið að fá meira því það streyma inn framlög á reikninginn frá neyðarsöfnuninni. Fólk vill leggja sitt af mörkum og fyrir það erum við óskaplega þakklát,“ segir Sveinn Rúnar.

Þar að auki hefur félagið millifært fimm þúsund dali, tæpar 600 þúsund krónur, úr félagsgjaldasjóði á ALP-gervilimastöðina á Gasa sem Ísland-Palestína hefur haft áralangt samstarf við ásamt OK Prostethics, fyrirtæki Össurar Kristinssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×