Lífið

Dansarar hertaka Ingólfstorg

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Brynja Pétursdóttir stendur á tímamótum.
Brynja Pétursdóttir stendur á tímamótum. Mynd/Einkasafn
„Þetta er búið að vera frábært ferðalag og það er blessun að fá að vinna við það sem ég elska að gera,“ segir dansarinn Brynja Pétursdóttir en hún fagnar í dag tíu ára starfsafmæli og á sama tíma fagnar dansskólinn hennar tveggja ára afmæli.

Í því tilefni verður heljarinnar hátíð haldin á Ingólfstorgi þar sem boðið verður upp á sannkallaða dansveislu. „Þarna verða danssýningar frá frábærum dönsurum, þar á meðal Brynjari frá Ísland Got Talent, einnig sigurvegurum Reykjavík og Breiðholt Got Talent ásamt sigurvegurum Street-danseinvígisins og fleira,“ segir Brynja um dagskránna.

Þá verður gestum og gangandi boðið að taka þátt í fjörinu. „Fólk getur komið og dansað og notið góðrar tónlistar en svo er líka hægt að sitja í rólegheitunum og borða ís,“ bætir Brynja við létt í lundu.

Street-dans var ekki til á Íslandi fyrir tíu árum en senan stækkar ört hér á landi. „Ég þurfti að útskýra mikið hvað það var nákvæmlega sem ég kenndi því fólk þekkti ekki þessa dansstíla eða hafði ranga hugmynd um þá. Þetta eru vinsælustu dansstílar síðari ára á heimsvísu og þeir stílar sem einkenna myndbönd og sviðsatriði þekktra tónlistarmanna,“ bætir Brynja við. Sýningin hefst klukkan 14.00 á Ingólfstorgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.