Heilsa

Mikilvægur hlekkur að sýna sjálfum sér samkennd og vinsemd

Rikka skrifar
Borghildur Sverrisdóttir segir hamingjuna ekki endilega liggja í markmiðinu sjálfu.
Borghildur Sverrisdóttir segir hamingjuna ekki endilega liggja í markmiðinu sjálfu. Visir/Valli
Markmið eru góð til að setja sér stefnu og gera sér grein fyrir því hvað maður vill, það er því mikilvægt að markmiðin sem við setjum okkur hafi merkingu fyrir okkur og séu virkilega það sem við viljum í hjartans einlægni,“ segir Borghildur Sverrisdóttir en á næstunnikemur út bók eftir hana sem heitir Hamingjan eflir heilsuna og fjallar m.a. um mikilvægi hamingjunnar og vellíðunar gagnvart heilsu. „Markmið geta hjálpað okkur að sækja það sem við viljum í lífinu en aðeins ef það skiptir okkur máli í raun og veru.“

Hún segir hamingjuna ekki endilega liggja í því að ná markmiðunum sjálfum heldur því hugarfari sem við beitum og hvaða afstöðu við höfum til þeirra.

„Mörg markmið renna út í sandinn af því að afstaða okkar til þeirra og leiðarinnar að markmiðinu er ekki okkur í hag. Til að auka líkur á að við náum þeim markmiðum sem við setjum okkur skiptir miklu máli að efla með sér jákvæðni, það þýðir annars vegar að æfa sig í jákvæðri afstöðu til hlutanna, eins og að sjá tækifæri í stöðunni í staðinn fyrir erfiðleika og veita litlum árangri athygli í stað þess að vilja sjá meiri árangur,“ segir hún.

Það getur verið andlega krefjandi þegar illa gengur að ná settum markmiðum og tilfinningar eins og reiði, kvíði, pirringur eða hræðsla geta látið á sér kræla.

Borghildur segir mikilvægt að leyfa þessum tilfinningum að koma og reyna um leið að dæma þær ekki.

„Það er ekki hægt að ætla sér að ná markmiði án þess að þurfa að takast á við neikvæðar tilfinningar, því stærri sem markmiðin eru, því fleiri og erfiðari geta tilfinningarnarnar orðið. Það er því gott að hafa í huga að þegar við berjumst ekki gegn þeim og látum þær ekki draga okkur niður heldur eflum með okkur jákvæðni fara hlutirnir að ganga betur,“ segir hún.

Borghildur vill frekar leggja áherslu á það að fólk temji sér jákvætt hugarfar og með því víkka sjóndeildarhringinn og auka sköpunargáfu.

„Jákvæðni hjálpar okkur að hugsa skýrar, meðtaka meira og er talin auka líkur á því að við vinnum okkur betur og fljótar út úr erfiðum aðstæðum. Jákvæðni eykur sköpunargáfu okkar og eykur þar með virkni til framkvæmda sem aftur eykur ánægju okkar og með fleiri ánægjustundum aukum við hamingju okkar til framtíðar. Það mætti því segja að ef við virkilega viljum ná markmiðum okkar þurfum við að huga að því að efla með okkur jákvæðni um leið með markvissum og meðvituðum hætti,“ segir hún. 

Annað sem hún telur vera mikilvægan hlekk í því að ná árangri í lífinu er að sýna sjálfum sér samkennd og vinsemd. Það hefur ekkert með sjálfsvorkunn né dekur að gera heldur byggist það á því að tala við sjálfan sig eins og maður myndi gera við góðan vin.

„Við erum ótrúlega góð í að tala okkur niður, ekki aðeins þegar illa gengur heldur bara svona dagsdaglega,“ segir Borghildur.

Að lokum hvetur Borghildur lesendur til þess að veita því athygli næstu daga hvernig við tölum til okkar sjálfra. Munu orðin bæta líðan okkar? Myndum við tala svona við okkar besta vin?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×