Jól

Ostakonfekt Rikku

Elín Albertsdóttir skrifar
Rikka hugsaði um allar konurnar sem hafa nóg að gera þegar hún lét í té uppskrift að einföldum jólaostakúlum.
Rikka hugsaði um allar konurnar sem hafa nóg að gera þegar hún lét í té uppskrift að einföldum jólaostakúlum. Myndir/Stefán
„Ostakonfektmolar sem ég myndi bjóða vinkonum mínum upp á með rauðvínsglasi,” segir Rikka um þessar girnilegu jólaostakúlur.
Friðrika Hjördís Geirsdóttir hefur stýrt heilsuþáttum á Stöð 2 undanfarið en hún hefur áður verið með glæsilega matreiðsluþætti. Það reyndist ekki auðvelt að ná í hana til að fá uppskrift, enda viðurkennir hún að vera alltaf á haus. „Það var einmitt ástæða þess að ég valdi mjög einfalda uppskrift. Flestir hafa ótrúlega mikið að gera þegar nær dregur jólum en þennan rétt tekur enga stund að gera. Hann lítur út fyrir að vera miklu flóknari en hann er,“ segir Rikka og bætir við að þetta séu óskaplega góðar ostakúlur. „Þetta eru ostakonfektmolar sem ég myndi bjóða vinkonum mínum upp á með rauðvínsglasi.“

Rikka segist halda í hefðirnar um jólin. „Sonur minn á afmæli 15. nóvember og þá set ég alltaf upp smávegis jólaskreytingar. Annars fer ég yfirleitt í jólaskap í byrjun nóvember,“ segir hún. En hvað verður í matinn á aðfangadag? „Ég er alltaf með hamborgarhrygg og hnetusteik. Mér finnst gott að fá mér sneið af hvoru,“ segir hún.

Jólaostakúlur

120 g rjómaostur með pipar

120 g hreinn fetaostur

1 msk. hunang

50 g trönuber

50 g pekanhnetur

Blandið ostinum og hunangi saman í matvinnsluvél. Hakkið hneturnar og berin saman. Mótið litlar kúlur úr ostablöndunni og veltið upp úr hnetu- og berjablöndunni. Geymið kúlurnar í kæli þar til þær eru bornar fram.






×