Innlent

Spurningum um sölu á Borgun enn ósvarað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þorsteinn Sæmundsson
Þorsteinn Sæmundsson vísir/vilhelm
Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að enn sé ekki ljóst hvers vegna eignarhlutur Landsbankans í Borgun var ekki settur í opið söluferli.

Efnahags- og viðskiptanefnd átti í gær fund með forstjóra Samkeppniseftirlitsins, bankastjóra Landsbankans og forstjóra Bankasýslu ríkisins þar sem áðurnefnd sala á 31,2 prósenta hlut Landsbankans í Borgun var til umræðu.

„Fyrir mig persónulega þá voru svör þessara manna ekki fullnægjandi,“ segir Þorsteinn Sæmundsson. Hann bendir á að Landsbankinn sé hlutafélag og 98% séu í eigu ríkisins. Það verði forvitnilegt að sjá hvað kemur á daginn á næsta hluthafafundi komi í ljós að hægt hefði verið að fá hærra verð fyrir hlut bankans.

Páll Gunnar Pálssonvísir/gva
„Reynslan sýnir að það er óheppilegt að viðskiptabankar, sem eru keppinautar, fari saman með eignarhlut í kreditkortafyrirtækjum,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. 

„Undanfarið hefur verið lögð áhersla á að lengra verði gengið í þessum efnum og að viðskiptabankarnir komi ekki saman að eignarhaldi fyrirtækjanna,“ heldur Páll áfram. Hann bætir við að Samkeppniseftirlitið muni hvorki taka afstöðu til þess hvaða bankar eigi greiðslukortafyrirtækin né hvort Landsbankanum hafi borið að setja hlutinn í opið söluferli.

„Við hvorki föllumst á eða gerum athugasemd við útfærsluna á sölunni,“ segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×