Sport

Fyrstu bræðurnir í hópi Íþróttamanna ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson og Jón Arnór Stefánsson.
Ólafur Stefánsson og Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Anton
Jón Arnór Stefánsson fylgdi í fótspor bróður síns Ólafs Stefánssonar þegar hann var kosinn Íþróttamaður ársins í kvöld en Jón Arnór varð efstur í í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á Íþróttamanni ársins 2014.

Ólafur Stefánsson var fjórum sinnum kosinn Íþróttamaður ársins á sínum ferli þar af þrisvar sinnum eftir að hann hélt upp á þrítugsafmælið sitt.

Jón Arnór er 32 ára gamall en á sama aldri var Ólafur búinn að hljóta þessi verðlaun tvisvar sinnum.  

Tveir fegðar hafa verið kosnir Íþróttamenn ársins, Vilhjálmur Einarsson og Einar Vilhjálmssonar annarsvegar og þeir Arnór Guðjohnsen og Eiður Smári Guðjohnsen hinsvegar.

Jón Arnór og Ólafur eru aftur á móti fyrstu bræðurnir sem hljóta þessa stærstu viðurkenningu sem íslenskur íþróttamaður getur unnið sér inn.

Stefán Eggertsson, faðir þeirra Jóns Arnórs og Ólafs, er um leið einstakur í íþróttasögunni enda sá eini sem á tvö börn sem hafa verið kosin Íþróttamenn ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.

Jón Arnór og Ólafur eiga nefnilega ekki sömu móður því Helga Lilja Björnsdóttir er móðir Ólafs en Ingigerður Jónsdóttir er móðir Jóns Arnórs.


Tengdar fréttir

Ásgeir og Pétur teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ

Knattspyrnumaðurinn Ásgeir Sigurvinsson og körfuboltamaðurinn Pétur Guðmundsson voru í kvöld teknir inn í Heiðurshöll ÍSÍ og eru nú alls níu íþróttamenn komnir inn í Heiðurshöll ÍSÍ sem var stofnuð í tilefni hundrað ára afmælis ÍSÍ árið 2012.

Íþróttamaður ársins valinn í kvöld

Í kvöld kemur í ljós hvern Samtök íþróttafréttamanna kusu íþróttamann ársins 2014 en kjörinu verður lýst í Gullhömrum í Reykjavík.

30 íþróttamenn fengu atkvæði í kjörinu í ár - stigin og sætin

Kjöri Samtaka íþróttafréttamanna var lýst í 59. sinn í kvöld á hófi í Gullhömrum í Reykjavík. Jón Arnór Stefánsson, landsliðsmaður í körfubolta og leikmaður Unicaja Malaga á Spáni, hlaut sæmdarheitið í ár og er annar körfuboltamaðurinn sem verður fyrir valinu og sá fyrsti í 48 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×