Sport

Fóru of snemma og misstu af ótrúlegri endurkomu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þessi trúðu allan tímann.
Þessi trúðu allan tímann. Vísir/Getty
Seattle Seahawks er komið í Super Bowl annað árið í röð eftir kraftaverkaendurkomu á móti Green Bay Packers í úrslitakeppni ameríska fótboltans í  nótt.

Það fengu þó ekki allir stuðningsmenn Seattle Seahawks að upplifa þessa ótrúlegu endurkomu því margir þeirra höfðu gefist upp og yfirgefið leikvanginn.

Seattle Seahawks var 7-19 undir í leiknum þegar aðeins fimm mínútur voru eftir og leikstjórnandinn Russell Wilson kastaði þá boltanum frá sér í fjórða sinn.

Útlitið var svo svart að stuðningsmenn heimaliðsins fóru að týnast af vellinum en þá hófst kraftaverkaendurkoman sem Tómas Þór Þórðarson lýsti svo skemmtilega í beinni á Stöð 2 Sport.

Seattle Seahawks kom til baka og vann leikinn 28-22 í framlengingu sem þýðir að liðið á möguleika á því að verða NFL-meistari annað árið í röð.

Stuðningsmennirnir sem yfirgáfu leikvanginn máttu ekki koma aftur inn en það fór örugglega ekkert framhjá þeim þegar trúfastari stuðningsmenn Seahawks-liðins fögnuðu hverju ótrúlega atvikinu á fætur öðru í þessum magnaða leik.

Það verður því lengi talað um þennan leik í Seattle en það er líka hægt að lofa þessum stuðningsmönnum  Seattle Seahawks liðsins sem gáfust upp og fóru af vellinum að þeir eigi líka eftir að vera minntir á þau mistök sín ansi oft á næstu misserum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×