Erlendir ferðamenn eru um 92% þeirra sem sækja heim átta af helstu kennileitum íslenskrar náttúru. Margir telja of marga ferðamenn í hópferðum við Geysi og Jökulsárlón en gestir eru einnig síst ánægðir með innviði og þjónustu við fyrrnefnda tvo staði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Ferðamálastofu.
Átta staðir voru skoðaðir meðal annars með tilliti til þess að skoða mun á milli árstíða hvað varðar upplifun og aðdráttarafl ferðamanna. Þær niðurstöður sem vísað er til hér eru upp úr svörum ferðamanna síðastliðið sumar en staðirnir átta eru Djúpalónssandur, Geysir, Hakið á Þingvöllum, Hraunfossar, Húsadalur í Þórsmörk, Jökulsárlón, Seltún og Sólheimajökull.
Þrátt fyrir að fjöldi erlendra ferðamanna hingað til lands hafi aukist mjög ört undanfarin ár eru langflestir ánægðir með náttúruna og dvölina á stöðunum sem til skoðunar eru að því er segir í skýrslunni. Ánægja er einnig mikil með göngustíga, en hún er ekki eins mikil með aðra innviði og þjónustu.
Umhverfi Geysis þykir manngerðara en hinna staðanna en almennt þykir hreint á öllum svæðunum, þó síst við Jökulsárlón. Fáir hafa orðið varir við skemmdir á náttúrunni af völdum ferðamanna sem og rusl, skemmdir á jarðmyndunum og gróðurskemmdir. Sú umhverfisröskun sem ferðamenn taka helst eftir er rof úr göngustígum og þá sérstaklega í Þórsmörk og við Geysi.
Meirihluti ferðamanna á áfangastöðunum átta finnst fjöldi ferðamanna hæfilegur. Jökulsárlón og Geysir skera sig þó úr hvað þetta varðar þar sem um 40% ferðamanna þar þykir vera of mikið af hópferðamönnum. Um þriðjungi svarenda þar finnst of mikið af ferðamönnum almennt. Á Þingvöllum fannst 20% þátttakenda vera of mikið af ferðamönnum almennt og 18% gesta í Þórsmörk voru á sama máli. Um 8-11% við Seltún, Sólheimajökul og Djúpalónssand fannst of mikið af ferðamönnum.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.

