Innlent

Telja bardaga Gunnars Nelson hafa getað haft skaðleg áhrif á börn

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fjölmiðlanefnd gerði athugasemdir við útsendingu 365 frá bardaga Gunnars Nelson og Rick Story.
Fjölmiðlanefnd gerði athugasemdir við útsendingu 365 frá bardaga Gunnars Nelson og Rick Story.
Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að bardagi Gunnars Nelson við Rick Story hafi innihaldið ofbeldi sem haft geti skaðvænleg áhrif á andlegan eða siðferðilegan þroska barna. Því hafi ekki samræmst lögum að sýna frá bardaganum fyrir klukkan 22.00 á Stöð 2 Sport án viðvörunar.



Í áliti Fjölmiðlanefndarinnar sem birt er á vefsíðu þess kemur fram að sátt hafi náðst í málinu á milli nefndarinnar og 365, útgefanda Stöð 2 Sport. Samkomulagið felur í sér að 365 skuldbindur sig til að birta skýra viðvörun á undan efninu og auðkenna það með sjónrænu merki, sem gefur til kynna að efnið sé ekki við hæfi barna, allan þann tíma sem efninu er miðlað.



Fjölmiðlanefnd skuldbindur sig einnig til þess að kynna inntak sáttarinnar fyrir öðrum fjölmiðlum sem senda út myndefni í línulegri dagskrá. „Fjölmiðlanefnd mun hvetja myndmiðla sem miðla efni í línulegri dagskrá til að fylgja sömu reglum við auðkenningu á bardagaíþróttum sem innihalda sýnilegt og verulegt ofbeldi sem talist getur skaðlegt velferð barna,“ segir í sáttinni.



Tekist hefur verið á um bardagaíþróttina áður en bannað er að stunda hana hér á landi. Fólki er heimilt að æfa íþróttina en þurfa að fara út fyrir landsteina til að keppa. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hyggst leggja fram frumvarp sem miðar að því að leyfa íþróttina hér á landi.



Óljóst er hvaða áhrif það mun hafa á sýningar frá íþróttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×