Skoðun

Jafnrétti, þekking, víðsýni: Þess vegna styð ég Jón Atla til rektors

Brynhildur G. Flóvenz skrifar
Á morgun fer fram síðari umferð rektorskjörs við Háskóla Íslands. Tveir hæfir einstaklingar eru í framboði og það er í höndum starfsfólks og stúdenta að velja annað þeirra. Fjölmörg atriði skipta máli við mat á því hver er best til þess fallin/n að vera rektor Háskóla Íslands og misjafnt eftir einstaka kjósendum hvaða þættir vega þyngst í því mati. Í mínum huga er það einkum þrennt sem skiptir máli við það mat:

Þekking á stöðu og þörfum HÍ

Í fyrsta lagi er þekking viðkomandi á þörfum Háskóla Íslands. Ég tel að Jón Atli hafi sýnt mikla þekkingu og mikinn skilning á stöðu og þörfum skólans, starfsmanna hans og ekki síst stúdenta.

Jafnrétti, virðing og lýðræði

Í öðru lagi vil ég nefna framtíðarsýn viðkomandi. Mér hugnast einfaldlega framtíðarsýn Jóns Atla mjög vel. Sem femínista finnst mér áhersla hans á jafnrétti, hvort heldur er jafnrétti kynjanna eða jafnrétti fatlaðs fólks til náms og starfa við skólann, skipta mjög miklu máli. Þá er áhersla hans á mótun fjölskyldustefnu mikilvæg, enda brýnt málefni, ekki síst fyrir ungt fólk við skólann, bæði stúdenta og starfsfólk. Almennt vegur áhersla Jóns Atla á jafnrétti, virðingu og lýðræði mjög þungt í mínu mati.

Styrkur, vit og víðsýni

Í þriðja lagi eru það persónulegir eiginleikar viðkomandi, þ.e. hvort og hvernig viðkomandi getur raungert framtíðarsýn sína. Ég tel að Jón Atli hafi sýnt að hann hafi bæði þann styrk og það úthald sem nauðsynlegt er til að berjast fyrir bættum hag skólans, hvort heldur er innan skólans eða út á við. Hann hefur ennfremur bæði vit og víðsýni til að hlusta á hugmyndir og skoðanir annarra sem er nauðsynlegur eiginleiki rektors.  Jón Atli er ekki hræddur við gagnrýni  og ég held að hann muni verða óhræddur við að taka á þeim vandamálum sem upp kunna að koma hverju sinni í starfsemi skólans.

Síðast en ekki síst þá er Jón Atli framúrskarandi fræðimaður sem Háskóla Íslands væri sómi að í embætti rektors.

Brynhildur G. Flóvenz, dósent við lagadeild HÍ




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×