Viðskipti innlent

Telja hagvaxtahorfur meðal þeirra bestu í heimi

ingvar haraldsson skrifar
Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka, á fundi bankans um efnahagshorfur á síðasta ári.
Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka, á fundi bankans um efnahagshorfur á síðasta ári. vísir/gva
„Hagkerfið virðist vera í góðu jafnvægi um þessar mundir og hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru meðal þeirra bestu í heimi,“ segir í nýrri greiningu Arion banka á efnahagshorfum hér á landi á tímabilinu 2015 til 2017.

Þó er bent á að stórir áhættuþættir verði til staðar. „Ber þar helst að nefna vinnumarkaðinn og komandi kjarasamninga, en einnig yfirvofandi afnám gjaldeyrishafta,“ segir í markaðspunkti Greiningardeildar.

Greiningardeildin spáir því að hagvöxtur verði tæplega þrjú prósent á þessu ári, ríflega þrjú prósent árið 2016 og um 3,5 prósent árið 2017. Hagvöxturinn verði fyrst og fremst drifinn áfram af vexti í fjárfestingu og einkaneyslu. Þá er gert ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta verði jákvætt.

Greiningadeildin telur ýmsa þætti benda til þess krónan gæti styrkst til lengri tíma, jafnvel þó hún falli við afnám gjaldeyrishafta. Bent er á að Seðlabankinn hafi farið í aðgerðir til að halda aftur af styrkingu krónunnar. „Mikil styrking krónunnar væri þó ekki endilega ákjósanleg sökum þess að nauðsynlegt er að viðhalda viðskiptaafgangi næstu árin svo unnt verði að þjónusta erlendar skuldir þjóðarbúsins,“ segir í greiningu bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×