Viðskipti innlent

Aurum-málið: „Ólafur Þór Hauksson er ekki eins og hver annar saksóknari“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Þór Hauksson flutti Aurum-málið í héraði og voru Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding á meðal ákærðu.
Ólafur Þór Hauksson flutti Aurum-málið í héraði og voru Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding á meðal ákærðu. Vísir/GVA
Munnlegur málflutningur um ómerkingarkröfu ákæruvaldsins í Aurum-málinu svokallaða fór fram í Hæstarétti í dag.

Ríkissaksóknari fer fram á að dómurinn verði ómerktur vegna meints vanhæfis sérfróðs meðdómanda í málinu, Sverris Ólafssonar. Sverrir er bróðir Ólafs Ólafssonar, eins af sakborningum í Al Thani-málinu, sem var eins og kunnugt er dæmdur í fangelsi fyrir aðild sína að því máli.

Bræðratengslin ein og sér ættu að leiða til vanhæfis

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, fer með málið fyrir hönd ákæruvaldsins en ómerkingarkrafan er annars vegar byggð á ættartengslum Sverris við Ólaf og hins vegar á ummælum sem Sverrir lét falla eftir að dómur gekk í héraði.

Telur ákæruvaldið að í þeim orðum felist ákveðin afstaða meðdómandans til embættis sérstaks saksóknara en ummælin lét hann falla í viðtali við fréttastofu RÚV fjórum dögum eftir að dómur gekk. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari sem flutti málið í héraði, hafði þá sagt í fjölmiðlum að sér hefði verið ókunnugt um bræðratengsl Sverris og Ólafs Ólafssonar.

Vararíkissaksóknari sagði að almennt leiddu ættartengsl dómara og sakbornings í öðru máli ekki til vanhæfis en það væri ekki svo í þessu máli. Bræðratengsl Sverris og Ólafs hafi ein og sér átt að nægja til þess að Sverrir væri vanhæfur. Aurum-málið og Al Thani-málið væru tengd, ekki síst vegna þess sem gengið hefur á í tengslum við þau hrunmál sem embætti sérstaks saksóknara hefur sótt á síðustu árum.

„Ólafur Þór Hauksson, sem flutti málið í héraði, er ekki eins og hver annar saksóknari. Hann er holdgervingur embættis sérstaks saksóknara og í forsvari fyrir það sem sumir hafa kallað ofsóknir,“ sagði Helgi Magnús.

Ummæli Ólafs Þórs kölluðu ekki á svona sterk viðbrögð af hálfu dómarans

Þá sagði Helgi Magnús að ummæli Ólafs Þórs um að sér hefði ekki verið kunnugt um ættartengsl Sverris við Ólaf Ólafsson hefðu ekki kallað á svona sterk viðbrögð af hálfu meðdómandans og vararíkissaksóknari telur hann hafa sýnt.

„Þá tjáði verjandi eins sakborninganna í málinu, Gestur Jónsson, sig um þetta sama efni í fjölmiðlum og sagðist sömu skoðunar og Sverrir Ólafsson. Það lýsir þeim fáránleika sem þarna er kominn upp að verjandinn og dómarinn séu sammála um að sækjandinn sé ekki maður orða sinna og óheiðarlegur. Það er einfaldlega ekki hægt í dómsmáli að dómari og verjandi séu sömu skoðunar.“

Í Aurum-málinu voru þeir Lárus Welding, Jón Ásgeir Jóhannesson, fjárfestir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, sem báðir voru starfsmenn Glitnis, ákærðir fyrir umboðssvik vegna sex milljarða króna láns sem Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. sem var í eigu Pálma Haraldssonar, vegna kaupa á félaginu Aurum Holdings Ltd.

Fjórmenningarnir voru allir sýknaðir í héraði en einn þriggja dómara skilaði sératkvæði og taldi að sakfella ætti Lárus, Magnús Arnar og Jón Ásgeir fyrir umboðssvik og hlutdeild í þeim.


Tengdar fréttir

Hundruð tölvuskeyta á milli Jóns Ásgeirs og Lárusar

Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding, forstjóri Glitnis, skiptust á tölvupósti í á fimmta hundrað skipti á tímabilinu sem til rannsóknar var í svokölluðu Aurum-máli sérstaks saksóknara, frá því síðla árs 2007 og fram á mitt ár 2008.

Saksóknari vissi ekki af ættartengslum dómara í Aurum-máli

Sverrir Ólafsson, sem var sérfróður meðdómsmaður í Aurum-málinu, er bróðir Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns sem kenndur er við Samskip. Ólafur var ákærður af sérstökum saksóknara og síðar dæmdur í Al-Thani málinu. Sérstakur saksóknari hafði ekki upplýsingar um ætterni Sverris og segir að hann hefði hreyft mótmælum hefði það legið fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×