Erlent

Tala látinna nálgast 2.000: Björgunarteymi streyma til Nepal

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Tala látinna nálgast nú tvö þúsund, þar af sjö hundruð í Katmandú.
Tala látinna nálgast nú tvö þúsund, þar af sjö hundruð í Katmandú. Vísir/Getty
Alþjóðleg björgunarteymi streyma nú til Nepal og svæða sem urðu illa úti í skjálftanum mikla sem gekk yfir svæðið aðfaranótt laugardags. Tala látinna nálgast nú tvö þúsund, þar af sjö hundruð í Katmandú, höfuðborg Nepal. Fjölmargar byggingar hrundu til grunna í borginni, þar á meðal víðfræg og söguleg kennimerki.

Björgunarmenn eru einnig komnir í grunnbúðir í hlíðum Everestfjalls þar sem minnst sautján féllu í hamförunum. Stór snjóflóð hafa fallið síðasta sólarhring og eru grunnbúðirnar að hluta til grafnar undir snjó.

Íbúar í Katmandú sváfu margir undir berum himni í nótt, margir eru á vergangi, aðrir beinlínis óttast að vera í húsum sínum þar sem margir öflugir eftirskjálftar hafa riðið yfir. Þar á meðal einn sem mældist sex komma sjö að stærð.

Nepölsk stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi á þeim svæðum sem urðu verst úti og hafa óskað eftir aðstoð frá alþjóðasamfélaginu. Fjölmargar hjálparstofnanir hafa svarað kallinu og hafið neyðarsöfnun fyrir íbúa í Nepal, meðal annars Rauði krossinn.

Hægt er að leggja þeirri söfnun lið með því að hringja í 904-1500 (framlag: 1.500 kr), 904-2500 (framlag 2.500 kr) eða 904-5500 (framlag 5.500 kr). Þá er einnig hægt að leggja fé inn á reikning Rauða krossins 0342-26-12, kt. 530269-2649.


Tengdar fréttir

Börnin skelkuð en heil á húfi

Margrét Ingadóttir sem rekur heimili fyrir munaðarlaus börn í Katmandú í Nepal segir að það hafi verið afar erfitt að ná ekki sambandi við heimilið eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir landið í dag.

Tugir þúsunda á vergangi í Nepal

Yfirvöld í Nepal hafa staðfest að 1500 manns hafi farist í skjálftanum en óttast er að tala látinna eigi enn eftir að hækka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×