Viðskipti innlent

Birna telur að ný einkunn auki eftirspurn eftir skuldabréfum Íslandsbanka

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka
Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka
Íslandsbanki er fyrstur banka á Íslandi frá árinu 2008 til að komast úr ruslflokki en lánshæfisfyrirtækið Fitch Ratings birt í dag nýtt mat á lánshæfi og er bankinn metinn í fjárfestingarflokki.

Í mati Fitch Ratings kemur fram að fram að endurskipulagningu stórs hluta lánasafns Íslandsbanka frá árinu 2008 sé nú lokið og að bankinn hafi verið varfærinn í mati á greiðslugetu viðskiptavina niðurfærðra lána.

Fram kemur í mati Fitch Ratings að fyrirtækið telur Íslandsbanka vel undirbúinn undir afléttingu gjaldeyrishafta.

Hverju breytir þetta fyrir Íslandsbanka að fara upp í fjárfestingarflokk hjá Fitch Ratings? „Þetta breytir því aðallega að nú er stærri hópur fjárfesta sem má kaupa skuldabréf útgefin af bankanum. Sérstaklega erlendis, ef við horfum til þess. Þetta gerir það að verkum að eftirspurnin á að aukast og vonandi verðlagningin vonandi líka,“ segir Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka.

Er einhver eftirspurn eftir skuldabréfum bankans erlendis? „Allar útgáfur sem við höfum ráðist í hafa gengið vel og það hafa verið ágæt viðskipti með bréfin. Við höfum alveg fundið fyrir eftirspurninni.“

Birna segir að höftin verði áfram vandamál fyrir Íslandsbanka eins og alla aðra banka á Íslandi. Fitch Ratings metur ekki hina bankana en Birna segir að Íslandsbanki hafi verið í sambandi við Fitch undanfarið ár.

Íslandsbanki óskar eftir því að fá lánshæfismat frá Fitch? „Það er svoleiðis í öllum tilvikum. Þú óskar eftir því, já.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×