Lausn hefur verið fundin á þeim vanda sem skapaðist í kringum þátttöku Íslands í Eurovision í ár vegna verkfalls lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúi PwC mun sinna eftirlitshlutverkinu og þarf Ísland því ekki að draga sig úr keppni.
Þetta segir Hera Björk Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Eurovision hjá RÚV, í samtali við Vísi. Hún segir að leitað hafi verið lausna í samráði við yfirstjórn keppninnar. Nokkrir möguleikar hafi verið í boði en að niðurstaðan hafi verið sú að PwC, sem sé alþjóðlegur eftirlitsaðili keppninnar, muni sjá um öll endurskoðunar- og eftirlitsmál ásamt því að samþykkja þá sem sitja í dómnefndum og fara yfir niðurstöður íslensku dómnefndarinnar.
Þátttaka Íslands í Eurovision komst í uppnám í síðasta mánuði vegna verkfalls hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu því hingað til hefur það verið hlutverk lögbókanda að sinna eftirlitshlutverkinu.
Hera segist aldrei hafa óttast um þátttöku Íslands í keppninni, en er ánægð með að lausn sé loks fundin. Nú geti hún farið að einbeita sér að öðrum málum.
Ísland þarf ekki að draga sig úr Eurovision

Tengdar fréttir

Ætla að gera allt til að bjarga Eurovision
Ekki búin að finna plan B vegna verkfalls hjá sýslumanninum í Reykjavík.

Þarf Ísland að draga sig úr Eurovision?
Verkfall hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hefur víðtæk áhrif.

Tíminn að renna út: Tilkynna þarf um vott dómnefndar í dag
Verkfall BHM setti þátttöku Íslendinga í Eurovision í uppnám.