Innlent

Ekkert þokast í deilu BHM

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Salir 5 og 6 í Karphúsinu hafa verið þéttsetnir að undanförnu.
Salir 5 og 6 í Karphúsinu hafa verið þéttsetnir að undanförnu. Vísir/Vilhelm
Fundi Bandalags háskólamanna (BHM) og ríkisins lauk nú eftir hádegi í húsakynnum Ríkissáttasemjara án þess að nokkuð hafi þokast í deilunni.

Páll Halldórsson, formaður samninganefndar BHM segir stöðuna því nokkuð óbreytta. „Við erum bara ennþá að kljást um þetta, hvernig eigi að meta menntun til launa og hvaða aðferðir eigi að nota við það,“ segir Páll í samtali við fréttastofu.

Hann segist ekki hafa tilfinningu fyrir því hvort að ríkið muni semja við félagið áður en samningar nást á almennum vinnumarkaði en þangað til mun BHM halda sínum kröfum til streitu. Það beri þá enn mikið í milli deiluaðila. Næsti fundur deiluaðila hefur verið boðaður eftir helgi. 

Ótímabundið verkfall hjá hluta aðildarfélaga BHM stendur enn yfir. Þar af hafa fimm þeirra; Félag geislafræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala, Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala og Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu verið í verkfalli í 39 daga. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×