Innlent

Vigdís Hauksdóttir: Þegjandi samkomulag um engin verkföll á meðan vinstri stjórn var við völd

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar Alþingis.
Vigdís Hauksdóttir er formaður fjárlaganefndar Alþingis. Vísir
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, fullyrðir að samkomulag hafa verið um að fara ekki í verkfall á meðan vinstri stjórn var við völd. Þetta sagði hún í þættinum Eyjunni á Stöð 2 en brot úr þættinum má sjá hér að ofan.

Þegar þáttastjórnandinn Björn Ingi Hrafnsson spurði hana hver hafi gert það samkomulag svaraði Vigdís: „Það var þegjandi samkomulag, við vitum það alveg.“

Vísir hefur rætt við Gylfa Arnbjörnsson, forseta ASÍ, en hann segir ummælin fráleit. Rætt verður nánar við hann í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hún kom í þáttinn ásamt Birni Val Gíslasyni, varaformanni Vinstri grænna, og voru kjaramál til umræðu.



Heilbrigðisstarfsmenn halda lífi sjúklinga í herkví

Vigdís sagði stöðuna sem uppi er í þjóðfélaginu í kjaramálum grafalvarlega. „Þá er ég fyrst og fremst að tala um þá aðila sem eru ríkisstarfsmenn og halda hér lífi sjúklinga í herkví, halda hér tveimur landbúnaðargreinum í herkví líka.“

Hún stillti upp kjaradeilu tæknimanna á RÚV við hlið þessara grein og spurði hvers vegna þeir hefðu getað samið við Rafiðnaðarsambandið á einum degi eins og smellt væri fingri.

„Þetta er mjög alvarleg staða og að opinberir starfsmenn skuli nota verkfallsréttinn og velja út þessa viðkvæmu þætti,“ sagði hún jafnframt og sagðist ekki telja að dýralæknar ríkisins né kollegar hennar hjá sýslumanni væru með lág laun.



Köldustu kveðjur sem launþegar í landinu hafa fengið

Björn Valur Gíslason var ósáttur við orð Vigdísar.

„Þetta eru köldustu kveðjur sem launþegar í þessu landi hafa fengið lengi vel, þetta er mjög alvarleg staða sem uppi er og okkur ber skylda til að leysa hana í stað þess að hnýta í fólk með þessu orðalagi sem Vigdís Hauks fór yfir áðan. Gera lítið úr fólki sem er í kjaradeilu og er að leita réttinda sinna. Þetta voru kaldar kveðjur, mér finnst að þær eigi að fá að lifa í loftinu,“ sagði hann í lok þáttarins.


Tengdar fréttir

Öryggi sjúklinga ekki tryggt

Forstjóri Landspítalans fer hörðum orðum um Félag geislafræðinga. Mikilvægt sé að leysa þá hnökra sem hafi orðið á afgreiðslu undanþágubeiðna. Öryggi sjúklinga sé stefnt í hættu. Læknisfræðilegt mat verði að ráða för.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×