Innlent

BHM efast um samningsvilja ríkisins í kjölfar ummæla forsætisráðherra

Bjarki Ármannsson skrifar
Háskólamenn eru ósáttir við ummæli forsætisráðherra.
Háskólamenn eru ósáttir við ummæli forsætisráðherra. Vísir
Samninganefnd Bandalags háskólamanna (BHM) hefur verið boðuð til fundar í hádeginu í morgun til að ræða stöðuna í framhaldi af ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. Þar sagði ráðherra að nýir samningar við BHM yrðu ekki undirritaðir fyrr en niðurstaða í kjaraviðræðum á almenna vinnumarkaðnum væru í augsýn.

„Ríkið bara er ekki í aðstöðu til þess að byrja að semja fyrr en það sér hvað stefnir í á almenna markaðnum,” sagði Sigmundur Davíð. „Almenni markaðurinn þarf líka að hafa vissu fyrir því að ríkið muni ekki yfirbjóða það sem samið verður um á almenna markaðnum svoleiðis að menn treysti sér til þess að gera samninga,“ segir Sigmundur Davíð.

Í tilkynningu sem BHM sendi til fjölmiðla nú í kvöld er lýst yfir furðu vegna þessara ummæla og forsætisráðherra sagður draga samningsrétt ríkisstarfsmanna í efa.

„Kjaraviðræður BHM við ríkið eru á mjög viðkvæmu stigi,“ segir í tilkynningunni. „Boðað hafði verið til samningafundar hjá ríkissáttasemjara á morgun. Í ljósi ummælanna dregur BHM samningsvilja ríkisins í efa.“

Uppfært 23.55: Félag íslenska hjúkrunarfræðinga hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið tekur í svipaðan streng og forsvarsmenn BHM. Félagið segir að miðað við ummæli forsetisráðherra sé ljóst að ekki verði samið við hjúkrunarfræðinga í bráð.

„Það er vægast sagt sérkennilegt í kjarabaráttu að annar samningsaðilinn búi yfir því afli að geta sett lög á hinn samningsaðilann sem gerir sjálfsagt og eðlilegt verkfallsvopn að engu,“ segir í yfirlýsingunni. „Fíh telur að komi til lagasetningu á verkfall hjúkrunarfræðinga muni það einungis valda úlfúð og það ekki til þess fallandi að leysa málin á farsælan hátt fyrir báða aðila.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×