Innlent

Styrktu verkfallssjóði BHM um 15 milljónir

Samúel Karl Ólason skrifar
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, afhenti Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, styrkinn.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, afhenti Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, styrkinn. Vísir/Vilhelm
SFR, eða Stéttarfélag í almannaþjónustu, styrkti í dag verkfallssjóði Bandalags háskólamanna um 15 milljónir króna. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, afhenti Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni BHM, styrkinn sem kemur úr Vinnudeilusjóði SFR á fjölmennum fundi félagsmanna BHM í dag.

Með því sýndi SFR samstöðu með félagsmönnum BHM samkvæmt tilkynningu frá SFR.

Árni Stefán las upp og afhenti síðan Þórunni Sveinbjarnardóttur formanni BHM bréf þar sem SFR lýsir yfir stuðningi við bandalagið í þeirri harkalegu kjarabaráttu sem nú stendur yfir. Nokkur hundruð félagsmenn BHM voru á fundinum og fögnuðu orðum Árna Stefáns ákaft og Þórunn þakkaði fyrir þann kærkomna peningastuðning sem þarna var veittur og þeim mikla samhug sem honum fylgir.

Hér má sjá innihald bréfsins sem Árni Stefán las og afhenti Þórunni:

Sú alvarlega staða sem komin er upp á vinnumarkaði kallar á ríka samstöðu stéttarfélaga og bandalaga. Ríkisvaldið og Samtök atvinnulífsins hafa sýnt af sér fádæma getuleysi í að koma fram með trúverðugum hætti í yfirstandandi kjaraviðræðum. Í þessari stöðu þarf launafólk að standa saman.

SFR stéttarfélag í almannaþjónustu styður félaga sína innan BHM sem hafa staðið í harkalegri kjarabaráttu undanfarnar vikur.

Eitt af meginhlutverkum stéttarfélaga er að standa vörð um hagsmuni félagsmanna sinna og nú er staðan sú í kjarasamningsviðræðum að nauðsynlegt hefur verið að grípa til aðgerða. Kjör og réttindi launafólks eru í húfi. Í slíkum aðstæðum er samstaðan mikilvæg, ekki bara samstaða innan félaga og aðildarsamtaka heldur einnig milli stéttarfélaga sem standa í svipuðum sporum. Aðgerðum eins og þeim sem BHM stendur nú í fylgir mikill kostnaður auk álags og óvissu fyrir félagsmenn.

SFR - stéttarfélag í almannaþjónustu og Vinnudeilusjóður félagsins hefur í ljósi þessa ákveðið að færa BHM 15.000.000.- til að styrkja bandalagið í þeim hörðu átökum sem nú standa yfir.

SFR vill með þessu sýna samhug sinn í verki og styðja þannig við félagsmenn BHM og þá kjarabaráttu sem þeir nú standa í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×