Í fyrsta sinn á Íslandi er nú keppt á sérstökum gólfdúk frá Gerflor, sem framleiðir dúka sem er notað í fjölda íþróttagreina um allan heim.
„Hingað til höfum við bara spilað á trégólfinu,“ segir Guðmundur við Vísi og bendir á gólfið í TBR-húsinu við Gnoðarvog. „Það er alls ekkert slæmt en það er hrikalega flott að geta verið með dúk. Það er dúkur á öllum stærstu mótunum úti í heimi og algjörlega til fyrirmyndar að fá svona heima.“
Guðmundur segir að framleiðandinn hafi gefið Borðtennissambandi Íslands dúkinn vegna Smáþjóðaleikanna. „Það er ekki nokkur spurning að íþróttin mun njóta góðs af þessu um ókomin ár.“
Það þarf þó að leggja dúkinn og líma fyrir hvern viðburð og telur Guðmundur að hann verði aðeins notaður fyrir stærstu mótin hér á landi.
Hann segir að borðtenniskeppnin á Smáþjóðaleikunum sé sterk að þessu sinni, sérstaklega í kvennaflokki.

„Það er jafnari keppni í karlaflokki en þar eru þó ekki leikmenn sem eru í saman gæðaflokki og bestu konurnar.“
Ísland hefur ekki átt mikilli velgengni að fagna á leikunum til þessa. Bæði karla- og kvennalið Íslands töpuðu öllum sínum viðureignum í liðakeppninni fyrr í vikunni en í dag hófst keppni í tvíliðaleik. Íslensku pörin töpuðu fyrstu viðureignum sínum í morgun en spila aftur síðar í dag.