Innlent

Heilbrigðisráðherra þekkir ekki hvort óskað hafi verið eftir áliti Landspítalans

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar
„Þetta er auðvitað mjög þung staða” sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í Umræðunni í kvöld um uppsagnir hjúkrunarfræðinga á Landsspítalanum.

Einn hjúkrunarfræðingur sem rætt var við í þættinum var með uppsagnarbréf í vasanum og aðrir lýstu mjög erfiðu ástandi. Sigríður Gunnarsdóttir framkvæmdarstjóri hjúkrunar á spítalanum kallaði eftir því að spítalinn fengi aðkomu að því að leysa deiluna og kvaðst sjá margar leiðir til lausna. Hingað til hafi ekki verið leitað til spítalans eftir áliti. Kristján Þór sagðist ekki þekkja hver aðkoma spítalans hefði verið í þessum kjaraviðræðum, en að í læknadeilunni hefði fulltrúi spítalans komið að lausn mála.

Aðspurður sagði Kristján spítalann geta staðið undir hlutverki sínu með þá fjármuni sem honum væru skammtaðir og að í fjárlögum undanfarinna ára hefði verið forgangsraðað í þágu heilbrigðismála. Hann sagði einfaldlega of mikið hafa borið á milli deiluaðila til að samningar gætu nást.

„Ég mat það svo alla tíð að það væri flötur á samningum [...] en svo sjáum við það endurtekið gerast að samingarnefndir séu kallaðar saman og svo koðnar þetta allt niður og þar með er slegið á væntingar fólks.“ Kristján bætti við: „Síðasti fundur var þannig að bilið var breikkað frekar en að það dregist saman.” Þannig hafi lagasetningin verið leið til að breyta stöðunni.

Sigríður sagði að starfsemi Landsspítalans hafi dregist verulega saman á meðan á verkföllum hefur staðið. Nú verði spítalinn og starfsfólk hans að takast á við stóran uppsafnaðan vanda, sem enginn annar geti leyst. „Ég fagna því að Kristján tali þannig að stjórnvöld ætli að koma að því,” sagði Sigríður Gunnarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×