Þegar fjárfestar taka að óttast hrun á fjármálamörkuðum fjáfesta þeir oftar en ekki í vörum sem í gegnum tíðina hafa haldið verðgildi sínu. Grikkir horfa fram á erfiða tíma á næstu árum en íbúar landsins hafa brugðist við með því að fjárfesta í vörum frá Apple og ýmsum öðrum raftækjum.
„Fólk notar peningana sína núna því það er hrætt um að ná þeim ekki úr bönkunum,“ segir starfsmaður raftækjaverslunar í Aþenu í samtali við Bloomberg. „Mac tölva er eitthvað sem heldur verðgildi sínu.“
Úttektir úr bönkum hafa verið takmarkaðar við sextíu evrur en hins vegar eru engin takmörk á því hve mikið fólk getur notað debet eða kredit kortin sín. Margir virðast nýta sér það til hins ítrasta og brúka yfirdráttinn í að kaupa ýmsar vörur. Fjöldi fólks hamstrar mat meðan aðrir næla sér í raftæki áður en verð þeirra rýkur upp úr öllu valdi.
