Viðskipti innlent

Kári tekjuhæstur á árinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Líkt og greint var frá í gær, er Kári hástökkvarinn á lista yfir skattakónga Íslands.
Líkt og greint var frá í gær, er Kári hástökkvarinn á lista yfir skattakónga Íslands. Vísir/GVA
Kári Stefánsson, stofnandi og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, er tekjuhæstur allra á landinu með rúmlega 29 milljónir króna í mánaðarlaun samkvæmt nýjasta tekjublaði Frjálsar verslunar. Líkt og greint var frá í gær, er Kári hástökkvarinn á lista yfir skattakónga Íslands en hann skipar þriðja sæti listans í ár yfir þá sem greiða mest í tekjuskatt.

Jón Guðmann Pétursson er í öðru sæti listans að þessu sinni, með rúmlega 24 milljónir skráðar í mánaðarlaun. Jón sagði upp sem forstjóri Hampiðjunnar í fyrra og greint var frá því í fjölmiðlum að hann hefði fengið rúmlega 240 milljónir króna í starfslokagreiðslur.

Í þriðja sæti er Árni Harðarson, forstjóri Salt Investments, með rúmlega 22 milljónir í mánaðarlaun, og í því fjórða Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðasviðs Samherja, með rúmlega tuttugu milljónir í mánaðarlaun. Kristján skipaði efsta sæti listans í fyrra, þá með rúmlega sautján milljónir króna í mánaðarlaun.

Listi Frjálsrar verslunar er byggður á útsvarsskyldum tekjum á árinu 2014 og þurfa þær því ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Í einhverjum tilvikum kann skattstjóri að hafa áætlað tekjur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×