Erlent

Kínverjar hættir framkvæmdum á S-Kínahafi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Framkvæmdir Kínverja á S-Kínahafi hafa verið umdeildar.
Framkvæmdir Kínverja á S-Kínahafi hafa verið umdeildar. VÍSIR/AFP
Utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, sagði í dag að framkvæmdir Kína við endurheimt lands í Suður-Kínahafi hefðu verið stöðvaðar. Þetta sagði hann á fundi Kína og Samtökum ríkja í Suð-Austur Asíu (ASEAN) sem fram fór í dag.

„Kína hefur hætt framkvæmdum. Þið getið flogið yfir svæðið og séð það sjálf“ sagði Wang Yi við viðstadda.

Á fundinum tilkynntu utanríkisráðherrar Kína og Taílands að samþykkt hefði verið að hraða viðræðum um siðareglur varðandi athæfi ríkjanna á Suður-Kínahafi.

Kína gerir tilkall til yfirráða yfir stærstum hluta Suður-Kínahafsins sem talið er vera ríkt af náttúrulegum auðlindum auk þess sem að mikil umferð skipa er um hafið. Kínversk yfirvöld hafa hingað til alfarið hafnað kröfum Víetnam, Filippseyja, Brúnei, Malasíu og Taívan sem öll gera tilkall til síns hluta af hafinu.

Kínverjar héldu umfangsmiklar heræfingar á Suður-Kínahafi í síðustu viku en Bandaríkjamenn hafa einnig haldið heræfingar á svæðinu ásamt bandamönnum sínum. Kínverjar ásökuðu í kjölfarið Bandaríkjamenn um að vera orsakavaldur spennu á svæðinu.

Bandaríkin hafa hvatt deiluaðila til að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þessari deilu. Jafnframt hafa yfirvöld í Bandaríkjunum gefið út að Kyrrahafsfloti bandaríska hersins muni vernda skipaleiðir sem eru mikilvægar bandarískum viðskiptahagsmunum við Suðaustur Asíu og Mið-Austurlönd og liggja um Suður-Kínahaf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×