Körfubolti

NBA-leikmenn hjálpuðu Áströlum að tryggja sér sæti á ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthew Dellavedova og Patty Mills halda á verðlaunagripnum og liðsfélagar þeirra eru fyrir aftan.
Matthew Dellavedova og Patty Mills halda á verðlaunagripnum og liðsfélagar þeirra eru fyrir aftan. Vísir/Getty
Karlalandslið Ástralíu verður með í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna í Ríó á næsta ári en það var ljóst eftir að Ástralir unnu Nýja-Sjáland í leikjum um laust sæti.

Ástralir vann seinni leikinn 89-79 í Wellington á Nýja-Sjálandi og þar með samanlagt 2-0 en fyrri leikurinn í Melbourne endaði 71-59 fyrir ástralska landsliðið.

Þetta var ekki bara keppni um sæti á Ólympíuleikunum heldur einnig keppni um hvor þjóðin fagnaði sigri í Eyjaálfukeppninni.

NBA-leikmenn Ástrala voru með landsliðinu að þessu sinni og þeir áttu mikinn þátt í góðum sigrum liðsins en ástralskri leikmenn hafa verið áberandi í úrslitakeppni NBA-deildarinnar undanfarin tvö tímabil.

Matthew Dellavedova, bakvörður Cleveland Cavaliers, sló í gegn í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í ár en hann var bæði stigahæstur hjá ástralska landsliðinu (14 stig) og sá sá sem gaf flestar stoðsendingar (5).

Andrew Bogut, miðherji NBA-meistara Golden State Warriors, var með 10 stig og 11 fráköst í leiknum.

Patty Mills, bakvörður San Antonio Spurs, sló í gegn í úrslitakeppninni fyrir tveimur árum en hann var stighæstur í fyrri leiknum með 17 stig auk þess að gefa 4 stoðsendingar eins og Matthew Dellavedova. Mills lét sér nægja að skora 9 stig í seinni leiknum.

Cameron Bairstow, framherji Chicago Bulls, var nýliði hjá Bulls á síðasta tímabili en fékk ekki mörg tækifæri. Hann var með 10 stig í seinni leiknum og frákastahæstur í þeim fyrri.

Ástralir hafa verið fastagestir í körfuboltakeppni Ólympíuleikanna en þetta verða tólftu leikarnir í röð þar sem þeir vinna sér þátttökurétt. Ástralir hafa komist í átta liða úrslitin á síðustu tveimur leikjum og endað í 7. sæti á þeim báðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×