Innlent

Varnarmál færast til utanríkisráðuneytisins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Utanríkisráðuneytið er staðsett við Rauðarárstíg.
Utanríkisráðuneytið er staðsett við Rauðarárstíg. Vísir/VG
Utanríkisráðuneytið mun alfarið taka yfir málefnaflokkinn varnarmál í samstarfi við Landhelgisgæslu Íslands og Ríkislögreglustjóra samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Jafnframt er gert ráð fyrir því að fjárframlög til öryggis- og varnarmála hækki, útsendum starfsmönnum í sendiráðum verði fjölgað og að skrifstofa fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg verði opnuð á nýjan leik.

Utanríkisráðuneytið mun taka yfir skyldur innanríkisráðuneytisins vegna þeirra varnartengdra verkefna sem síðarnefnda ráðuneytið hefur sinnt. Samkvæmt samningi sem gerður var þann 30. júlí 2014 munu Landhelgisgæslan og Ríkislögreglustjóri annast tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum. Í því skyni munu fjárframlög til Landhelgisgæslunnar vegna loftrýmisgæslu lækka um 196 milljónir sem munu renna til utanríkisráðuneytisins sem tekur yfir málaflokkinn.

Fleiri sérfræðingar til NATO og enduropnun skrifstofu í Strassborg.

Gert er ráð fyrir því að framlög til öryggis- og varnarmála muni aukast um 213 milljónir króna. Fjölga á borgaralegum sérfræðingum frá Íslandi undir merkjum NATO úr fimm í tíu. Auka á stuðning við loftrýmisgæslu sem verður fært aftur í fyrra form auk þess sem efla á þyrlubjörgunarþjónustu Landhelgisgæslunnar.

Fjölga á útsendum starfsmönnum í sendiráðum Íslands og styrkja á sendiráð Íslands í Brussel til þess að auka áhrif Íslands á vettvengi EES-samnningsins. Gert er ráð fyrir að 40 milljónum verði varið í að enduropna skrifstofu fastanefndar Íslands við Evrópuráðið í Strassborg sem lokað var árið 2009. Ísland er eina aðildarríki Evrópuráðsins sem ekki hefur fasta viðveru í Strassborg.

Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður utanríkisráðuneytisins verði 12,9 milljarðar sem er aukning upp á 12% frá síðustu fjárlögum en í þeim var gert ráð fyrir að  rekstrarkostnaðurinn yrði 11,5 milljarðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×