Skoðun

Breyttir tímar í samgöngum

Dagur B. Eggertsson skrifar
Samgönguvika hefst í dag og stendur fram á næsta þriðjudag. Markmið hennar er að hvetja fólk til að nota allskyns leiðir til að komast á milli staða. Við erum öll sammála um að það eigi að vera hagkvæmt, þægilegt og auðvelt að ferðast milli staða í borginni. Þess vegna höfum við reynt að búa til betri skilyrði fyrir hjólreiðafólk og gangandi, styrkt almenningssamgöngur og hvatt til þess að fólk noti fjölbreyttar aðferðir til að komast til og frá. Það er betra fyrir hjólandi, gangandi, þá sem eru í strætó, en líka þá sem eru á bíl.

Fjölbreyttar leiðir

Næstu skref eru að fjölga hjólastígum og bæta merkingar með það að markmiði að miklu fleiri hjóli til og frá vinnu með hverju ári. Þegar kemur að strætó viljum við fjölga forgangsreinum og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sett stefnuna á afkastameiri almenningssamgöngur. Við höfum óskað eftir viðræðum við innanríkisráðherra um það.

Niðurstaða verður hraðvagnar eða léttlestarkerfi, eins og við þekkjum úr sambærilegum borgum. Til skemmri tíma viljum við búa til þétt net forgangsreina og forgangsljósa fyrir strætó – til að þjónustan verði greiðfær og góð.

Grænt eða grátt?

Miklar breytingar eru að eiga sér stað í samgöngumálum í heiminum. Sem betur fer. Það er snar og mikilvægur þáttur í viðbrögðum við loftslagsbreytingum. Almenningssamgöngukerfi eru að eflast og hjólreiðar sömuleiðis en hvort tveggja er einn stærsti mælikvarðinn á gæði og samkeppnishæfni borga. Umhverfisvænar og hagkvæmar samgöngur eru ein okkar stærsta áskorun á næstu árum. Á sama tíma verðum við að bjóða upp á raunhæfa valkosti fyrir fjölskyldur og fyrirtæki, í formi lestarkerfis eða hraðvagna, strætó og hágæða hjólastíga.

Við opnum Samgönguviku formlega í dag kl. 13 í Bankastrætinu sem verður um leið lokað fyrir bílaumferð niður að Lækjargötu í nokkra klukkutíma. Dagskrá vikunnar er á vef Reykjavíkurborgar en þar á að vera eitthvað fyrir alla. Gleðilega Samgönguviku!




Skoðun

Sjá meira


×