Þegar Stoltenberg var spurður hvort Rússar myndu ekki túlka aukinn viðbúnað bandalagsins, svo sem í ríkjum Eystrasaltsins, sem ógnandi tilburði vesturveldanna, sagði hann aðgerðir NATO viðbragð við framferði Rússa.

Skilaboðin séu þau að NATO standi sterkt að baki aðildarríkjum sínum og hafi bæði getu og vilja til að koma þeim til verndar gegn hvers konar ógn.
„Allt sem NATO gerir er gert í varnarskyni, í réttu hlutfalli og það er algjörlega í takt við skuldbindingar okkar. NATO verður að bregðast við þegar við sjáum aðgerðaglaðara Rússland haga sér á þann hátt sem Rússar hafa gert síðasta árið.“
Einnig kom fram í máli Stoltenbergs í gær að NATO stæði frammi fyrir margvíslegum áskorunum. „Stríðsátök, óstöðugleiki og óöryggi, auk flóttamannavanda sem er hörmuleg afleiðing þess óróa sem við sjáum suður af okkur. Við þessu bregst NATO,“ sagði hann.
Verið væri að koma á mestu aukningu sameiginlegra varna bandalagsins frá lokum kalda stríðsins. Komið hafi verið á fót sameiginlegu viðbragðsherliði sem brugðist geti við með mjög stuttum fyrirvara og komið hafi verið upp smærri stjórnstöðvum í Austur-Evrópu.
Ráðherrafundurinn samþykkti að bæta við tveimur slíkum í Ungverjalandi og Slóvakíu, til viðbótar við þær sem í síðasta mánuði voru virkjaðar í Búlgaríu, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Rúmeníu.
Um leið áréttaði Stoltenberg að lausn mála í Sýrlandi þyrfti að vera á sviði stjórnmálanna.
„Til lengri tíma leysir hernaður engan vanda í landinu. Bardaga þarf að stöðva og pólitíska lausn verður að finna.“ Áhyggjuefni væri að her Rússa, sem látið hefur til sín taka í landinu, beini spjótum sínum ekki aðallega að stríðsmönnum Íslamska ríkisins (ISIS), heldur ráðist hann á hópa stjórnarandstæðinga og styðji sitjandi stjórn Sýrlands.
„Framferði Rússa er ekki gagnlegt,“ sagði Stoltenberg og biðlaði til landsins um að leika fremur uppbyggilegt hlutverk og vinna með öðrum þjóðum í baráttunni við ISIS. Stuðningur við Assad væri ekki uppbyggilegt framlag til friðsamlegrar og varanlegrar pólitískrar lausnar í Sýrlandi.
Fundur varnarmálaráðherra NATO snerist að stórum hluta um að marka til lengri tíma stefnu í varnarmálum bandalagsins þegar lokið hafi verið að hrinda í áætlun ákvörðunum frá því á síðasta ári um viðbragðsáætlanir, viðbúnað og skipan herafla NATO. Stoltenberg segir enn standa yfir mat á stöðu mála í Afganistan, en þegar því lyki yrðu teknar ákvarðanir um frekari stuðning NATO við stjórnvöld þar. Hann segir samstöðu um það í aðildarríkjum NATO að þegar núverandi áætlun um stuðning þar ljúki, þá taki við frekari stuðningur og til langs tíma.