Erlent

Telur sig hafa geta komið í veg fyrir hryðjuverkin 11. september

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir frambjóðendur.
Donald Trump bindur bagga sína ekki sömu hnútum og aðrir frambjóðendur. Vísir/AFP
Auðkýfingurinn Donald Trump, sem sækist nú eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári, segist fullviss um að ef hann hefði verið forseti árið 2001 hefði stefna hans í innflytjendamálum komið í veg fyrir árásirnar á Tvíburaturnana þann 11. september.

„Ég er virkilega, virkilega harður þegar kemur að ólöglegum innflytjendum. Ég er virkilega harður við fólk sem vill koma hingað til lands,“ lét Trump hafa eftir sér í viðtali við sjónvarpsstöðina Fox í dag.

„Ég trúi því að ef ég hefði verið við stjórnvölinn, ég efast um að þessar fjölskyldur – ég efast um að þetta fólk hefði verið hér á landi.“

Milljarðamæringurinn var einnig við sama heygarðshornið þegar bróður Jeb Bush, mótframbjóðanda hans, bar á góma en George W. Bush var forseti Bandaríkjanna á árunum 2001 til 2009.

„Jeb sagði: Bróðir minn færði okkur öryggi,“ en Tvíburaturnarnir féllu samt á hans vakt,“ sagði Trump. „Er ég að kenna honum um? Ég er ekki að kenna nokkrum manni um en Tvíburaturnarnir féllu samt. Svo þegar hann segir „við vorum örugg“ þá vorum við varla örugg. 3000 manns létu lífið.“

Trump sagði þá að ef stefna hans í innflytjendamálum hefði verið við lýði: „væru miklar líkur á því að þetta fólk hefði ekki verið í landinu.“

Jeb Bush hefur lýst því yfir að hann sé ekki parsáttur við þessi þrálátu skot auðkýfingsins á bróður sinn. „Ég skil ekki af hverju hann heldur áfram að minnast á þetta,“ sagði Bush við CNN í dag. „Mér finnst þetta til marks um það að honum sé ekki alvara með að vera leiðtogi heraflans og sá sem sér um að móta utanríkisstefnu landsins.“ Jeb Bush bætti við að í stað þess að líta út eins og forsetaframbjóðandi hagaði Trump sér eins og að hann væri ennþá stjórnandi The Apprentice, raunveruleikaþáttarins sem sýndur var við miklar vinsældir á fyrsta áratug aldarinnar.

Viðtalið við Trump má sjá í heild sinni hér að neðan og umræður um Bush og Tvíburaturnana hefjast þegar rétt um níu mínútur eru liðnar. 


Tengdar fréttir

Steven Tyler hótar Trump málsókn

Steven Tyler, Aerosmith söngvari, hefur krafist þess að Donald Trump, auðjöfur og forsetaframbjóðandi, hætti að spila lag hans „Dream on“ í kosningabaráttu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×