Innlent

Engar líkur á að verkfallinu verði frestað

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR.
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR. vísir/styrmir kári
Árni Stefán Jónsson, formaður SFR stéttarfélags, segir engar líkur á að verkfalli félagsmanna verði frestað, þrátt fyrir að ríkið hafi lagt fram nýja tillögu í morgun. Hann segir aðildarfélögin nú vinna að því að útfæra þessar hugmyndir.

„Við getum ekki frestað verkfallinu, og það eru engar líkur á því. Verkfallið byrjar klukkan tólf í kvöld, það er algjörlega á hreinu,“ segir Árni. „Núna er bara næsta skref að fara inn í baklandið okkar. Við erum að velta málum upp og við ætlum að það taki töluverðan tíma að fara yfir þessa hugmynd. Svo hvort það taki einn klukkutíma eða tólf, við vitum það ekki,“ bætir hann við.

Þá sagði Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, það jafnframt ljóst að verkfallinu yrði ekki frestað.

Deiluaðilar; SFR, Sjúkraliðafélag Íslands og Landssamband lögreglumanna settust við samningaborðið í húsakynnum ríkissáttasemjara í morgun. Vonast er til að það skýrist í dag í hvaða farveg kjaraviðræðurnar fara. Krafa þessara hópa er að samið verði við þá um sambærilegar launahækkanir og á almenna markaðnum.

Verkfallið nær til tæplega sex þúsund félagsmanna og skellur á á miðnætti í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×