Sport

Treyjuskipti að ryðja sér til rúms í NFL-deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Odell Beckham Jr., útherji New York Giants, skiptir á treyjum við Brandon Marshall, útherja New York Jets.
Odell Beckham Jr., útherji New York Giants, skiptir á treyjum við Brandon Marshall, útherja New York Jets. vísir/gettu
Treyjuskipti, sem hafa nánast aldrei tíðkast í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, eru að ryðja sér til rúms í þessari vinsælustu íþróttagrein Bandaríkjanna.

Knattspyrnumenn hafa skipts á treyjum eftir leiki í áratugi, en sagt er að Frakkar hafi komið þessu af stað árið 1931 þegar þeir voru svo upp með sér að vinna England í landsleik að þeir báðu um treyjur ensku leikmannna til að eiga sem minjagripi.

Nokkrir leikmenn í bandarísku NFL-deildinni hafa verið iðnir við að fá treyjur mótherja sinna að undanförnu.

Julio Jones, útherji Atlanta Falcons, ofurstjarnan Odell Beckham Jr., útherji New York Giants, og Breni Giacomini, leikmaður New York Jets, eru allir hrifnir af þessari nýjung og eru duglegir að skiptast á treyjum eftir leiki.

„Ég vildi óska ég hefði byrjað á þessu fyrsta árið mitt í deildinni,“ sagði Giacomini um þessa nýju hefð í NFL-deildinni við New York Times skömmu eftir að skiptast á treyjum við Alan Branch, varnarlínumann New England Patriots, á síðustu leiktíð.

Þetta finnst þó öllum ekkert sniðugt. Mike Tomlin, þjálfari Pittsburgh Steelers, er búinn að banna sínum mönnum að skiptast á treyjum við mótherjann eftir leiki.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×