Hlutabréf í Volkswagen féllu mjög í dag eftir að stjórnendur fyrirtækisins uppljóstruðu að útblástursskandallinn gæti náð til um 800.000 fleiri bíla en áður var talið. Kostnaður vegna þessa er talinn geta numið um tveimur milljörðum bandaríkjadollara.
Í yfirlýsingu frá Volkswagen kemur fram að svindlbúnaðinn hefði ekki aðeins verið að finna í díesel heldur sé möguleiki á að hann sé einnig í nokkrum bensínknúnum bílum. Því væru bílarnir talsvert fleiri en talið var í upphafi.
Hlutabréf fyrirtækisins féllu í dag um tíu prósent en þau hafa fallið um helming frá því í september þegar upp komst um skandalinn. 3.647 bílar hér á landi eru með svindlbúnaðinn innanborðs.
