Sport

Bætti eitt flottasta NFL-metið í lélegasta leiknum á ferlinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peyton Manning.
Peyton Manning. Vísir/Getty
Peyton Manning, leikstjórnandi Denver Broncos, bætti eitt eftirsóttasta metið í NFL-deildinni í gær en útkoma leiksins var ekkert til að monta sig yfir.

Manning varð í gær sá leikstjórnandi sem hefur kastað flesta jarda í sögu NFL-deildarinnar og bætti þar met Brett Favre. Meti Favre var 71838 jardar en Manning bætti það með fjögurra jarda kasti á Ronnie Hillman.

Leikurinn sjálfur fer hinsvegar líka í sögubækurnar sem einn versti leikur Peyton Manning á ferlinum. Denver tapaði leiknum 29-13 á móti Kansas City Chiefs, Manning kastaði boltanum fjórum sinnum frá sér og Manning var settur á bekkinn í lok þriðja leikhluta.

Tölur Manning í leiknum voru svo lélegar að tölfræðieinkunn hans var núll. Það heppnuðust aðeins 5 af 20 sendingum hans, hann kastaði bara samtals 35 jarda, náði ekki að gefa snertimannssendingu en kastaði boltanum aftur á móti fjórum sinnum í hendur mótherjanna.

„Ég fór út á völlinn til að hjálpa liðinu en endaði með því að eyðileggja fyrir liðinu," sagði Peyton Manning eftir leikinn.

Þetta var aðeins annað tap Denver-liðsins í níu leikjum á tímabilinu en bæði töpin hafa komið í síðustu tveimur leikjum

Peyton Manning mistókst að ná í annað met sem er metið yfir flesta sigurleiki. Þetta var annar leikurinn í röð sem honum mistókst að landa því.

Vörnin hefur haldið Denver Broncos liðinu á floti á tímabilinu og hún á mestan þátt í þessum sjö sigrum liðsins. Peyton Manning er aftur á móti sá sem hefur kastað boltanum oftast frá sér af öllum leikstjórnendum deildarinnar eða 17 sinnum í 9 leikjum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×