Skoðun

Auðlindaarðurinn og þjóðin

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Fiskistofa hefur nú birt á vef sínum ágæta samantekt um heildarupphæð álagðra veiðigjalda þrjú sl. fiskveiðiár. Niðurstaðan er eftirfarandi:

• fiskveiðiárið 2012/2013 voru álögð veiðigjöld alls 12,8 milljarðar króna.

• fiskveiðiárið 2013/2014 voru álögð veiðigjöld alls 9,2 milljarðar króna.

• fiskveiðiárið 2014/2015 voru álögð veiðigjöld alls 7,7 milljarðar króna.

Með öðrum orðum, lækkunin tvö sl. fiskveiðiár frá árinu 2012/2013, er 8,7 milljarðar og í reynd nokkru meiri ef um tölur á verðlagi hvers árs er að ræða. Veiðigjöldin á síðasta fiskveiðiári eru sem sagt í heild ekki nema 7,7 milljarðar og munar þá ekki miklu að ríkisstjórninni hafi tekist að þurrka út að fullu hugsunina um sérstakt afkomutengt veiðigjald sem leggist ofan á almennt gjald sem taki mið af kostnaði við helstu þjónustustofnanir sjávarútvegsins.

Er skýringanna á þessari lækkun að leita í hríðversnandi afkomu sjávarútvegsins? Nei sem betur fer ekki. Lengsta góðærisskeið í sögu íslensk sjávarútvegs stendur enn. Vissulega hefur gengið nokkuð verið að styrkjast á þessu ári og blikur eru á lofti vegna viðskiptabanns Rússa. En þessa fer fyrst að gæta nú og þá á næsta ári og breytir engu um afkomuna til baka litið sem hér er verið að fjalla um, þ.e. liðin fiskveiðiár. Á móti berast einnig jákvæðar fréttir svo sem af saltfiskmörkuðum sem eru að taka við sér, aflabrögð eru góð, þorsk og ýsukvóti aukinn o.s.frv.

Flest bendir til að enn einu árinu sé að ljúka þar sem fjármunamyndunin, framlegðin, í íslenskum sjávarútvegi sé af stærðargráðunni 75-80 milljarðar króna. Eigendur stærri sjávarútvegsfyrirtækja hafa flestir greitt sér arð á árinu vegna góðrar afkomu 2014 sem samanlagt er að minnsta kosti tvöföld upphæð á við álögð veiðigjöld í heild á síðasta fiskveiðiári. Niðurstaðan er að þjóðin fær sáralitla hlutdeild beint í auðlindarentunni, viðbótararðinum af sjávarauðlindinni og það er í boði ríkisstjórnarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×