Erlent

Svía­konungur vill nýta hús­næði konungs­fjöl­skyldunnar til að hýsa hælis­leit­endur

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Gústaf er mjög jákvæður í garð þess að útvega húsnæði í umsjá konungsfjölskyldunnar til hælisleitenda.
Karl Gústaf er mjög jákvæður í garð þess að útvega húsnæði í umsjá konungsfjölskyldunnar til hælisleitenda. Vísir/AFP

Karl Gústaf Svíakonungur útilokar að hælisleitendur fái inni í konungshöllinni í Stokkhólmi en vill gjarnan leggja til húsnæði sem er í umsjá konungsfjölskyldunnar þannig að hýsa megi hælisleitendur.

Sænska ríkisstjórnin segist nú ekki geta útvegað húsnæði til allra þeirra hælisleitenda sem koma til landsins og hefur það fengið konung til að kanna hvort hann geti eitthvað komið til hjálpar.

Margareta Thorgren, upplýsingafulltrúi sænsku konungsfjölskyldunnar, segir í samtali við DN að konungsfjölskyldan hafi fylgst grannt með framvindu mála er varða straum flóttafólks til landsins. Þannig hafi konungsfjölskyldan stutt við bakið og veitt mikið fé til fjölda aðila sem vinna að málefnum hælisleitenda.

Thorgren segir ekki mögulegt að hýsa hælisleitendur í konungshöllinni í Stokkhólmi þar sem um einn vinsælasta ferðamannastað landsins sé að ræða og vinnustaður fjölda fólks. Konungur sé þó opinn fyrir „öðrum skapandi hugmyndum“.

Hún segir konunginn mjög jákvæðan í garð þess að útvega húsnæði í umsjá konungsfjölskyldunnar til hælisleitenda. „Vissulega. Við þurfum þó að taka tillit til menningarverðmæta of þannig háttar. Annars þykir okkur í heildina það vera frábær hugmynd að nýta húsnæði sem annars standa tóm.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×