Erlent

Donald Trump hæddist að fötlun blaðamanns

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump virtist gera grín að fötlun blaðamanns.
Donald Trump virtist gera grín að fötlun blaðamanns.
Donald Trump hefur orðið fyrir mikilli gagnrýni eftir að hann hæddist að fötlun blaðamanns á kosningafundi í gær. Það gerði hann þegar hann var að verja ummæli sín um að hafa séð þúsundir múslima fagna því í New Jersey þegar flugvélum var flogið á tvíburaturnana í New York árið 2001. Lögregluþjónar og yfirvöld í New Jersey segja þetta ekki vera satt.

Blaðamaðurinn Serge Kovaleski skrifaði grein fyrir Washington Post árið 2001 þar sem hann hélt því fram að lögreglan hefði handsamað og yfirheyrt einstaklinga sem fögnuðu hryðjuverkaárásinni. Fyrr í vikunni sagði Kovaleski að hann hefði rætt við fjölda íbúa New Jersey á sínum tíma, en hann mundi ekki nægilega vel eftir svörum þeirra, enda væru fjórtán ár liðin.

„En ég man ekki eftir því að einhver hafi sagt að um þúsundir, eða jafnvel hundruð, manns hafi verið að ræða. Það var ekki svo, ef ég man rétt,“ sagði Kovaleski við CNN. Hann vinnur nú fyrir New York Times.

Á kosningafundi í Suður-Karólínu í gær gerði Trump lítið úr þessum ummælum Kovaleski og þar að auki gerði hann grín að fötlun hans. Kovaleski er með liðasjúkdóm sem sem gerir honum erfitt að hreyfa hendurnar.

Í stað þess að biðjast afsökunar eða eitthvað slíkt, fór Trump á Twitter og gagnrýndi New York Times harðlega eins og sjá má hér að neðan.

Kovaleski sjálfur segir þetta ekki koma sér á óvart. Miðað við reynslu hans af Donald Trump væri ekki skrítið að hann leggðist svo lágt. Þetta sagði Kovaleski í samtali við Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×