Sóley Tómasdóttir, oddviti vinstri grænna í Reykjavík og forseti borgarstjórnar, ætlar á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í kvöld að leggja til breytingu á mannréttindaráði þegar kosið verður í ráðið. Breytingin er sú að Sóley verði sjálf nýr formaður ráðsins og taki við af flokkssystur sinni hjá vinstri grænum, Líf Magneudóttur.
Fundur borgarstjórnar hófst klukkan 14 og er enn rætt um fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár. I kjölfarið verður síðari umræða um fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar áður en kosið verður í borgarráð og að því loknu, mannréttindaráð. Beina útsendingu frá fundinum má finna hér.
Líf gegnir formennsku í mannréttindaráði en samkvæmt heimildum Vísis ætlar Sóley að taka við formennskunni. Ákvörðunin var tekin af Sóley í síðustu viku og var flokksfélögum tilkynnt um hana þá. Líf var skipuð formaður ráðsins þegar meirihluti var myndaður í borginni í júní 2014 en á sama tíma tók Sóley við hlutverki forseta borgarstjórnar.
Samkvæmt heimildum Vísis hafa samskiptaerfiðleikar verið á milli Lífar og Sóleyjar um langa hríð en sú síðarnefnda sigraði með minnsta muni í forvali flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2014. Hlaut Sóley 153 atkvæði en Líf 152 atkvæði.
Hvorki náðist í Sóleyju né Líf við vinnslu fréttarinnar.
Sjónvarpfrétt Stöðvar eftir fyrrnefndar kosningar hjá vinstri grænum má sjá hér að neðan.
Innlent