Innlent

Segja forstjóra segja ósatt

Svavar Hávarðsson skrifar
Hörður Arnarson, forstjóri Lands­virkjunar.
Hörður Arnarson, forstjóri Lands­virkjunar.
Norðurál hefur vísað ásökunum forstjóra Landsvirkjunar í garð stjórnenda félagsins á bug.

Í tilkynningu frá Norðuráli segir að af máli forstjórans megi draga þá ályktun að nær öll gagnrýni sem beinist að Landsvirkjun í opinberri umræðu sé á ábyrgð Norðuráls. „Jafnframt er því haldið fram að Norðurál stýri ákveðnum verkalýðsfélögum. Eins og allir sjá þá eru þessar fullyrðingar út í hött.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, sakaði á fimmtudag forsvarsmenn Norðuráls um að hafa truflað erfiðar kjaraviðræður í Straumsvík í því skyni að bæta samningsstöðu sína, en Norðurál og Landsvirkjun takast nú hart á um endurskoðun raforkusamnings.

Í tilkynningunni frá Norðuráli segir að viðræður um samningsbundna framlengingu orkusamnings milli fyrirtækjanna hafi farið fram af kurteisi og virðingu og góður gangur verið í þeim nýlega.

„Það er því óvænt og mikil vonbrigði að Landsvirkjun skuli koma fram með þessum hætti eftir nærri 20 ára farsælt samstarf fyrirtækjanna. Norðurál mun áfram vinna af heilindum að samkomulagi við Landsvirkjun og vonar að Landsvirkjun geri hið sama.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×