Erlent

Trump mælist enn með mest fylgi þrátt fyrir ummæli um múslima

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/AFP
Bandaríski auðjöfurinn Donald Trump mælist enn með mest fylgi meðal þeirra sem sækjast eftir að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins í bandarísku forsetakosningnum sem fram fara á næsta ári.

Trump mælist með 35 prósent fylgi í nýrri skoðanakönnun Reuters og Ipsos, en könnunin er sú fyrsta sem birtist eftir að Trump sagði að meina ætti öllum múslimum inngöngu í Bandaríkin.

Ummæli Trump hafa vakið mikla reiði, bæði í Bandaríkjunum og á alþjóðavettvangi. Þannig hefur forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, Repúblikaninn Paul Ryan, fordæmt ummælin, sem og aðrir sem sækjast eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins.

Flestir kjósendur Repúblikanaflokksins sögðust þó lítið kippa sér upp við orð Trump, þó að margir töldu að þau gætu skaðað möguleika hans á að verða forsetaefni flokksins.

Taugaskurðlæknirinn Ben Carson mældist í könnunni með næstmest fylgi, eða tólf prósent, á meðan öldugadeildarþingmaðurinn Ted Cruz og fyrrum ríkisstjórinn Jeb Bush mældust báðir með tíu.

Forval Repúblikanaflokksins hefst í Iowa-ríki þann 1. febrúar næstkomandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×