Erlent

Hillary Clinton: Trump er ekki lengur fyndinn, hann er hættulegur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hillary Clinton var gestur í spjallþætti Seth Meyers í gærkvöldi.
Hillary Clinton var gestur í spjallþætti Seth Meyers í gærkvöldi. Skjáskot
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi Demókrata í Bandaríkjunum, hefur fordæmt Donald Trump, segir hann hættulegan og að hann sé ekki lengur fyndinn.

Clinton lét þessi ummæli falla í spjallþætti Seth Meyers á sjónvarpsstöðinni NBC í gærkvöldi við mikinn fögnuð áhorfenda.

Eftir hryðjuverkaárásirnar í París og skotárásina í San Bernardino í Kaliforníu hefur Trump kallað eftir eftirliti með moskum og að múslimum verði meinað að koma til Bandaríkjanna.

„Framan af voruð þið og allir aðrir bara að grínast með Trump og það var fyndið,“ sagði Clinton við Meyers sem er þekktur grínisti. „Núna hefur hann hinsvegar farið langt yfir strikið og það sem hann er að segja er ekki bara svívirðilegt og rangt, það er hættulegt.

Að mati Clinton hafa orðræða og ummæli Trump slæm áhrif á getu Bandaríkjanna til þess að berjast gegn ISIS og að ummæli hans muni án efa rata beint í áróður samtakanna.

„Þetta nýjasta útspil hans um að banna múslimum að koma til landsins spilar beint upp í hendurnar á ISIS,“ sagði Clinton. „Með þessu fá þeir áhrifaríkt áróðurstæki til þess að fá til liðs við sig unga múslima frá Evrópu og Bandaríkjunum. Nú þurfa allir, og ekki síst Repúblikanar, að stíga upp og segja: Nú er komið nóg.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×