Erlent

Trump um Pútín: Engum hefur tekist að sanna að hann hafi drepið einhvern

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Donald Trump ferðast nú landshorna á milli í kosningabaráttu sinni.
Donald Trump ferðast nú landshorna á milli í kosningabaráttu sinni. vísir/Ap
„Ef Pútín ber virðingu fyrir mér og ef Pútín kallar mig snilling þá þigg ég hrósið fyrir minn part, sem og fyrir hönd þjóðarinnar,“ segir auðkýfingurinn Donald Trump.

Í árlegu sjónvarpsávarpi sínu á fimmtudag fór Vladimir Pútín Rússlandsforseti fögrum orðum um Trump sem sækist nú eftir útnefningu repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á næsta ári. Þar hældi Pútín honum á hvert reipi, sagði hann bæði snjallan og hæfileikaríkan. „Það er ekki okkar að leggja mat á kosti hans, heldur bandarískra kjósenda,“ sagði Pútín við blaðamenn að lokinni sjónvarpsútsendingunni. „Hann er mjög áberandi persóna, hæfileikaríkur, tvímælalaust.“

Í samtali við ABC News í dag sagðist Trump vera þakklátur fyrir jafn hlý ummæli í sinn garð og tók upp hanskann fyrir hinn nýja bandamann sinn. Inntur eftir svörum um hvað honum þætti um orðróma þess efnis að Pútín hafi látið taka fjölda blaðamanna af lífi í valdatíð sinni sagðist Trump ekki hafa séð neinar sannanir þess efnis.

„Engum hefur tekist að sanna að hann hafi drepið nokkurn mann,“ sagði Trump og bætti við. „Hann hefur alltaf neitað því. Þú ert saklaus uns sekt er sönnuð, að minnsta kosti hérlendis. Það hefur aldrei verið sannað að hann hafi drepið blaðamenn.“

Talið er að um 36 blaðamenn hafi verið myrtir í Rússlandi frá árinu 1992. Frægasta dæmi þess er eflaust rannsóknarblaðamaðurinn Anna Politkovskaya, sem reyndist stjórn Pútíns óþægur ljár í þúfu, sem var myrt árið 2006. Morðingi hennar var dæmdur í lífstíðarfangelsi á síðasta ári.

Sjá má viðtalið við Trump á ABC hér að neðan.


Tengdar fréttir

Bush atyrðir Trump í tilnefningarslag

„Svívirðingar skila þér ekki í forsetaembættið,“ sagði Jeb Bush við Donald Trump í sjónvarpskappræðum í fyrrinótt.

Ted Cruz kjöldregur Trump

Nú þegar sjö vikur eru til kosninga hefur Ted Cruz tíu prósentustiga forskot á mótframbjóðanda sinn auðkýfinginn Donald Trump í Iowa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×